Aðalfundur Fallís 2023 var haldinn 24.apríl og sóttu 8 félagsmenn fundinn. Eftirfarandi voru endurkjörnir í stjórn:
Skúli Þórarinsson, forseti
Jón Ingi Þorvaldsson, gjaldkeri
Ingólfur Kristinsson, ritari
Hlöðver Þór Árnason, varamaður
Snorri Hrankelsson var skipaður öryggisfulltrúi. Félagsgjöld voru ákveðin 10.000 kr. fyrir fulla aðild og stjórn ákvað í framhaldi að nýta heimild sem aðalfundur veitti til þess að bjóða upp á tímabundið leyfi fyrir 7.000 kr.
Alls greiddu 26 fullt árgjald á árinu, þar af 23 íslenskir félagsmenn og einnig 3 gestir á Iceland Boogie 2023. Aðrir gestir á Iceland Boogie, 13 talsins greiddu fyrir tímabundið leyfi. Tekjur af félagsgjöldum og tímabundnum leyfum voru því samtals 351.000. Fallís greiddi síðan niður stökk fyrir félagsmenn á Iceland Boogie fyrir alls 182.000 kr.
Rekstrartekjur voru samtals 351.000 og heildarrekstrarkostnaður 287.701. Fjármagnstekur voru 61.655 og fjármagnsgjöld 13.564. Heildarafkoma var því alls jákvæð um 111.390 kr.
Stökkhátíðin Iceland Boogie var haldin í annað sinn dagana 7.-16.júlí 2023 af Skydive ehf. í samstarfi við Fallís. Í þetta sinn var byrjað á Melgerðismelum og þaðan síðan farið víðsvegar um norð-austur hornið. M.a. var stokkið inn í Heimskautagerðið við Raufarhöfn, Ásbyrgi, Goðafoss og Hrísey á milli þess sem stokkið var á Melgerðismelum þar sem 5 nýliðar fóru í gegnum AFF námskeið á mettíma. Í fyrsta sinn var boðið upp á HALO stökk úr 24k feta hæð og var farið í tvö slík load á Melgerðismelum fyrri helgina og eitt load á Hellu viku síðar. Frá Melgerðismelum var farið inn á Möðrudal og gist þar tvær nætur en til stóð að gera út þaðan í nokkra daga. Vegna veðurs var tekin ákvörðun um að flýta för suður fyrir heiðar og var m.a. stokkið inn á Flúðir, Reynisfjöru og eitt kvöldið var lent við bæinn Hvamm undir Eyjafjöllum þar sem hópurinn gisti tvær síðustu næturnar. Að lokinni dagskrá Iceland Boogie var síðan boðið upp á stökk fyrir þá sem eru búsettir á Íslandi, bæði fyrir sportstökkvara og einnig farþegastökk. Fengin var til landsins sama vél og árið áður, Cessna Caravan 208 frá Þýskalandi með einkennisstafina D-FILL. Búið er að auglýsa dagsetningar fyrir Iceland Boogie 2024 en í ár fer stökkhátíðin fram dagana 14.-21.júlí.
Meðfylgjandi er ársreikningur Fallís fyrir 2023.
Kommentare